Sunday, May 28, 2006
Góður dagur







Þau undur og stórmerki gerðust annars á Austurgötunni í dag að kl. 13:05 reis bóndinn upp úr sæti sínu og sagðist ekki nenna að vinna meira í dag. Húsmóðirin réði sér ekki af kæti en þar sem hún er eigingjörn kona með eindæmum ákvað hún að nú skyldi fjölskyldan drífa sig út úr bænum - og fá hvíld frá stöðugu renneríi 5-10 ára barna. Þá var bara að henda saman nesti og setja upp sólgleraugun. Viðkomustaðirnir voru Grjóteyri í Kjós, pikknikk og ör-fjallganga þar rétt innar í Kjósinni og svo til Þingvalla. Bóndinn fékk tækifæri til að sýna karlmennsku sína á leiðinni þar sem það sprakk á druslunni (það hefði örugglega ekki gerst á Landcruiser sko!). Svo var endað í meatloaf í Hlyngerðinu. Góður dagur (þó að bóndinn hafi verið boðaður á fund eftir kvöldmat - maður getur víst ekki verið of kröfuharður).