
Það tók mikið á að koma fröken Katrínu allan lengsta gönguhringinn í Dimmuborgun. Hún kvartaði og kveinaði "ég get ekki labbið" - "mér er illt í fótnum" og svo var haltrað og hrunið á jörðina. Móðir, amman og aldraður afinn þurftu að skiptast á að hafa stúlkuna (18 kg.) á hestbaki og háhest og framan á maganum. Öllum brögðum var beitt til að tæla hana áfram en þau duguðu lítið þangað til hún fékk sérhannaðan göngustaf og fékk að stjórna öllum hinum, þ.e. hvenær skyldi gengið eða hlaupið eða stoppað. Á endanum var gott að hvíla lúin bök í jarðböðunum, sem eru algjör snilld.

Frúin plataði foreldra sína með sér í smá ferð til Akureyrar og Stórutjarna um daginn - enda lítið gagn í bóndanum í uppgjörsmánuðinum. Mæðgurnar áttu þarna þrjá góða daga í fínu veðri með Ömmingu og Afárna - sem voru að öllum líkindum farin að þreytast aðeins á galsanum og prakkaraskapnum (og hávaðanum) eftir þrjá sólarhringa.
Hér eru myndir frá skrepptúr síðasta laugardag. Eins og allar alvöru flíspeysufjölskyldur gera þá skrapp fjölskyldan austur fyrir fjall um daginn í leit að skárra veðri. Eftir stopp á Selfossi, hvar starfsmaður Landsbankans fékk tækifæri á að sýna hollustu sína á afmælishátíðinni, var ekið að Seljalandsfossi, rúmlega hálfa leið inn með Merkurfljóti upp í Þórsmörk og loks að Skógum. Sérdeilis góður dagur fyrir plebba.