Thursday, May 03, 2007
5 ára
Hún Kata okkar er orðin 5 ára gömul. Eftir gjafaopnanir í morgun skottaðist hún ofurglöð í leikskólann, spennt að fá Sollukórónu og Royalbúðing með kafffinu.
Fimm vetra stúlkan hóf balletferil sinn í gær. Eftir að hafa tilkynnt það öllum sem heyra vildu og hlakkað til í mánuð ákvað daman eftir frumraun sína að vera ekkert að hanga í þessum fúla ballet. Hún er sumsé hætt eftir fyrsta tímann. Byrjuð og hætt á sama degi. Geri aðrir betur.
Hvað varðar framtíðaráform þá ætlar hún Kata að verða eitt og annað þegar hún verður stór (skv. nýjustu upplýsingum a.m.k.):
1. Prinsessa (nema hvað?)
2. Kona sem vinnur í pylsubarnum á Selfossi (en dömurnar þar eru með afar flottar derhúfur sem gerir þær "fallegri en mamma".
3. Kona sem vinnur í dótabúð.
Hún ætlar að kaupa sér húsið sem er verið að byggja (fyrir hana að sjálfsögðu) þar sem Skúli rafvirki var með búð.
Fimm ára afmælisveislan verður haldin 12. maí þar sem Lundúnir kalla á foreldrana næstu helgi.