Wednesday, June 11, 2008
Sumarið er komið

Svona á það að vera.
Tuesday, June 10, 2008
Trampólín frampólín skrampólín
Trampólín - lesist með norðlenskum hreim.
Já trampólín er greinilega það sem ALLIR verða að eiga á Akureyri

. Og ekki bara á Akureyri heldur eru líka trampólín í nánast hverjum einasta garði á Grenivík líka. Enda ekki leiðinlegt að hoppa á trampólíni. Trampólín frampólín skrampólín - garanterað stuð.
Norðurland

Nú er nýlokið helgarreisu fjölskyldunnar til Akureyrar og nærsveita en þangað brunaði fjölskyldan á föstudagsmorgun vopnuð afþreygingu og alls kyns tækjum og tólum. Fyrir þá sem ekki vita telst það nú lágmarksferðabúnaður nútíma fjölskyldufólks að hafa meðferðis svo sem tvo ípóða, dvd+aukaskjá, þrjá síma, tvær myndavélar, tölvu og garmin. Í þessu sambandi má nefna, fjölskyldunni til varnar, að hún þekkir til annarrar fjölskyldu (5 manna að vísu) sem ekki aðeins er búin að koma sér upp steisjónbíl, fellihýsi og labrador heldur líka ferðaklósetti og sérstökum ferðaflatskjá. Við nefnum engin nöfn hér.

Á leiðinni norður voru stúlkurnar spurðar hvað þeim langaði helst að gera á Akureyri. Sú styttri varð fyrri til að svara: “Fara í Tojsarojs” [þ.e. verslunina Toys´r us sem nýlega opnaði fyrir norðan]. Greinilegt að sú eldri hafði haft áhrif á þetta val enda er hún eins og svampur þegar markaðssetning barnabissnessins er annars vegar.
Á Akureyri hitti fjölskyldan Sesar, Katrínu og foreldra og Ými Má og Lilju Björgu og foreldra þeirra. Alltaf gaman að hittast, spísa, spjalla og spekúlera. Svo var líka aðeins sjoppað, synt, skoðað og spásserað. Einnig hitti fjölskyldan fyrir þessa líka flottu spóa á girðingu í Grýtubakkahreppi, helling af rollum með afkvæmi sín og fleiri húsdýr.
Stúlkunum varð að ósk sinni þegar þær fengu að skoða (já bara skoða) aðeins í fyrirheitnu búðina á meðan móðir þeirra varð sér úti um bala, skóflu og gúmmíhanska til að stinga upp og nappa einu stykki af blóðbergi á leiðinni heim. Já, íslensk náttúra er einni blóðbergsþúfu fátækari nú en í gær og garðurinn hjá frúnni er einni þúfu ríkari. Því miður er frúin líka einum marbletti ríkari og krúserinn einni rispu ríkari því í flýtinum að koma þýfinu inn í bíl missteig frúin sig í brekku og flaug beint á bílhurðina og þaðan á jörðina. Þetta var satt að segja verulega vont en það er víst ekki alltaf tekið út með sældinni að vera með grænfingraheilkennið og maður verður að vera tilbúinn að fórna fyrir fjölbreytnina. Nú er bara að vona að þúfan dýra þrífist.
Tuesday, June 03, 2008
Útskrifuð

Jæja, nú er hún litla skessa formlega útskrifuð af daglegu leikskólastarfi á Laut og orðin Flakkari en það er hópur allra elstu barnanna á leikskólanum, þ.e. frá þremur deildum. Flakkarar eru sko AÐAL og langflottust. Þau eru ekki bara muuuuuuuun eldri en hin börnin á leikskólanum heldur gera þau skemmtilegri hluti, fara út um allan bæ og mega miklu miklu meira.
Núna þrammar daman fram hjá Laut á morgnana og kastar kveðju á öll þessi litlu börn á deildinni. Ennþá finnst henni þó nauðsynlegt að fá nokkra kossa og knús hjá uppáhaldsfóstrunni sinni henni Rúrí. Maður þarf nú ekki að sleppa öllu svoleiðis þó maður sé orðinn Flakkari.
Á myndinni sést Kata á útskriftarathöfninni um daginn (ræða skólastjóra, kórsöngur, afhentar möppur og rósir). Okkar kona er í sínum sjálf-völdu lörfum á meðan flest hin börnin mættu prúðbúin og strokin. Ekkert pjatt hér á ferð.
Kaldársel

Óbyggðirnar kalla og við verðum að gegna þeim. Fyrsta gistiferð sumarsins var farin 17. maí sl. alla leið upp í Kaldársel en þangað mun vera 8 km. löng leið. Flestir í bekknum hennar Ingu mættu með foreldrum og að sjálfsögðu kom Kata skata með enda finnst henni hún tilheyra vinum Ingu ekkert síður en Inga sjálf. Reyndar tókst henni að troða sér svo vel upp á liðið að henni var tryggður sigur í hæfileikakeppninni um kvöldið bara með því að vera með.

Húsmóðirin verður að viðurkenna að hún hefur nú sofið betur enda var henni óspart tjáð hvað hún væri nú þreytuleg næstu daga á eftir.
Kata var hins vegar ekki búin að fá nóg enda fór hún með leikskólanum í aðra gistiferð í Kaldársel tveimur dögum síðar, orðin öllu vön daman sú.
