Tuesday, June 10, 2008
Norðurland

Á Akureyri hitti fjölskyldan Sesar, Katrínu og foreldra og Ými Má og Lilju Björgu og foreldra þeirra. Alltaf gaman að hittast, spísa, spjalla og spekúlera. Svo var líka aðeins sjoppað, synt, skoðað og spásserað. Einnig hitti fjölskyldan fyrir þessa líka flottu spóa á girðingu í Grýtubakkahreppi, helling af rollum með afkvæmi sín og fleiri húsdýr.
Stúlkunum varð að ósk sinni þegar þær fengu að skoða (já bara skoða) aðeins í fyrirheitnu búðina á meðan móðir þeirra varð sér úti um bala, skóflu og gúmmíhanska til að stinga upp og nappa einu stykki af blóðbergi á leiðinni heim. Já, íslensk náttúra er einni blóðbergsþúfu fátækari nú en í gær og garðurinn hjá frúnni er einni þúfu ríkari. Því miður er frúin líka einum marbletti ríkari og krúserinn einni rispu ríkari því í flýtinum að koma þýfinu inn í bíl missteig frúin sig í brekku og flaug beint á bílhurðina og þaðan á jörðina. Þetta var satt að segja verulega vont en það er víst ekki alltaf tekið út með sældinni að vera með grænfingraheilkennið og maður verður að vera tilbúinn að fórna fyrir fjölbreytnina. Nú er bara að vona að þúfan dýra þrífist.
