Thursday, October 30, 2008
Framúrskarandi hagsýni

Nú er frúin á Austurgötunni orðin hagsýn húsmóðir og velur nú helst allt íslenzkt. Það er bakað hægri vinstri, uppskera garðsins nýtt og nú síðast eldaði hún lambahjörtu. Hjörtun brögðuðust afar vel með rjómasósu og sultu og voru húsráðendur í skýjunum yfir því hve svona dýrleg máltíð kostaði lítið. Á meðan runnu kjúklingabringurnar og salatpokinn út í ískápnum og það gerðu fleiri matvæli sem týndust á bak við allan þjóðræknis- og sparnaðarmatinn.

Til að spilla ekki rjómahálfpotti að óþörfu brá húsmóðirin á það ráð að baka vöfflur -Vilko-vöfflur að sjálfsögðu. Maður vill nú ekki ræna störfum frá fólki með því að blanda deigið sjálfur. Á myndinni sést hvernig Ingibjörg sýnir hagsýna hugsun og sparar rafmagn með því að þeyta rjómann í höndunum með hand-handþeytara frá langömmu sinni.
Smelli svo með einni mynd af ungbarninu.
Kreppan tekur þetta ekki frá okkur

Ónei. Þó að allt sé komið á rönguna í þjóðfélaginu þá á maður nú ennþá góða vini og yndisleg börn. Sérstaklega gott er að eiga vini sem hafa aðgang að jafn flottu sloti og Hamarskot við Álftavatn er. Alveg brilljant. Ekki spillir fyrir að þetta sómafólk kann að grilla humar og baka pönnsur.

Ekki náðist nein almennileg mynd af herra Haraldi júníor þar sem hann var alltaf of fljótur að hlaupa í burtu og ungfrú nafnlaus var sofandi alla helgina.

Nú skorum við á okkar fólk, þið vitið hver þið eruð, að notfæra sér efnahagsástandið og fjárfesta í litlu sætu sumarkoti ...... eða jafnvel stæðilegu sumarsloti.
Thursday, October 16, 2008
NN: Öpdeit

Svona lítur litla manneskjan út núna. Orðin 6 vikna.
Ennþá öll í bólum.
Ennþá nafnlaus.
Farin að brosa og hjala.
Allt í sómanum sumsé.
